Arion banki: Tilkynning um frekari endurkaup samkvæmt endurkaupaáætlun

2023-03-16 14:58:00

Vísað er til fréttatilkynningar frá Arion banka hf. (Arion banka) sem birt var 5. september 2022, þar sem tilkynnt var að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefði heimilað Arion banka að hefja endurkaup á hlutum og heimildarskírteinum (SDR), útgefnum af Arion banka á Íslandi og í Svíþjóð.

Stjórnendur Arion banka hafa í dag ákveðið að hefja nýjar umferðir endurkaupa bankans á hlutum  og heimildarskírteinum útgefnum af bankanum samkvæmt endurkaupaáætlun. Koma þau endurkaup til viðbótar við þau endurkaup  sem þegar hafa farið fram og auglýst hafa verið. Þær umferðir endurkaupa sem nú hefst varða endurkaup hluta og heimildarskírteina, útgefinna af bankanum, á Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm, að samanlögðu andvirði allt að 1,27 milljarði íslenskra króna sem samsvara kaupum á allt að 7.946.000 hlutum og heimildarskírteinum.
 
Tilgangur endurkaupa Arion banka á hlutum og heimildarskírteinum útgefnum af bankanum er fyrst og fremst að lækka hlutafé bankans í samræmi við samþykkta arðgreiðslustefnu bankans, en einnig að gera bankanum kleift að eignast eigin hluti í því skyni að efna skuldbindingar samkvæmt kaupréttarsamningum við starfsfólk bankans sem gerðir voru á grundvelli kaupréttaráætlunar.
 
Íslandsbanki hf. verður umsjónaraðili þeirra umferða endurkaupa Arion banka á hlutum og heimildarskírteinum, útgefnum af bankanum, sem eru til viðskipta í Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm, sem hér eru kynntar.  Íslandsbanki hf. mun við framkvæmd endurkaupa á mörkuðunum tveimur taka sjálfstæðar fjárfestingarákvarðanir, án fyrirmæla frá Arion banka varðandi tímasetningu viðskipta. Endurkaupum á hlutum og heimildarskírteinum Arion banka samkvæmt þeim endurkaupaáætlunum sem hér eru kynntar mun í síðasta lagi ljúka 1. júní 2023, eða þegar markmið endurkaupa hafa náðst. Arion banki áskilur sér rétt til þess að hætta hvenær sem er endurkaupum á öðrum hvorum eða báðum ofangreindum mörkuðum.
 
Endurkaupum á hlutum og heimildarskírteinum Arion banka verður skipt milli íslenska og sænska markaðarins. Skilmálar þeirra endurkaupa bankans sem fram fara í kjölfar tilkynningar þessarar varða endurkaup á allt að 246.000 heimildarskírteinum í Svíþjóð, sem samsvara 0,02% af þegar útgefnu hlutafé bankans, og endurkaup á allt að 7.700.000 hlutum Arion banka hjá Nasdaq Iceland, sem samsvara 0,51% af þegar útgefnu hlutafé bankans. 
 
Heildarendurgjald sem bankinn mun greiða fyrir endurkaup heimildarskírteina í Svíþjóð í þeirri umferð endurkaupa sem fer fram þar mun að hámarki nema 40 milljónum íslenskra króna. Heildarendurgjald fyrir endurkaup hlutabréfa á Íslandi í þeirri umferð endurkaupa sem fer fram þar mun að hámarki nema 1.230 milljónum íslenskra króna. Samanlögð fjárhæð sem bankinn mun verja til þeirra endurkaupa hluta og heimildarskírteina sem hér eru kynnt nemur því að hámarki einum milljarði tvö hundruð og sjötíu milljónum króna (1.270.000.000 kr.).
 
Áður en þær umferðir endurkaupa á hlutum og heimildarskírteinum Arion banka sem til viðskipta eru á Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm sem hér eru kynntar hefjast á bankinn 56.208.735 eigin hluti og heimildarskírteini, sem samanlagt samsvara 3,72% af útgefnu hlutafé bankans.
 
Framkvæmd endurkaupanna verður þannig háttað, að kaup hvers dags í kauphöll Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm munu að hámarki nema 25% af meðaldagsveltu með hlutabréf eða SDR bankans á undangengnum 20 viðskiptadögum áður en kaup gerast. Í kauphöll Nasdaq í Stokkhólmi mega kaup aðeins eiga sér stað innan þess verðbils sem gildir á Nasdaq Stockholm, þar sem verðbilið nær frá hæsta kaupverði (e. best bid) til lægsta söluverðs (e. best offer) sem í gildi er og tekið saman hjá Nasdaq Stockholm, allt í samræmi við kafla H í viðbæti D við Reglubók fyrir útgefendur hlutafjár á aðalmörkuðum Nasdaq Nordic sem tók gildi þann 1. febrúar 2021 og 12. janúar 2023 að því er varðar viðbæti D. Í kauphöll Nasdaq á Íslandi skal verð fyrir hvern hlut að hámarki samsvara hæsta verði í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í viðskiptakerfi Nasdaq Iceland, hvort sem hærra er, allt í samræmi við ákvæði framseldar reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2016/1052, sem lagagildi hefur á Íslandi.
 
Endurkaupin eru framkvæmd í samræmi við lög og reglur á Íslandi og í Svíþjóð, eins og við á, þar með talin Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik („MAR“) og ákvæði framseldar reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2016/1052, sem og íslensk lög um hlutafélög nr. 2/1995, lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum auk reglugerðar nr. 320/2022 um sama efni. Viðskipti með eigin hluti verða birt opinberlega í samræmi við gildandi lög og reglur í Svíþjóð og á Íslandi, eins og við á.

MFN